Steingrímur Eyfjörð

7.8.-31.8.2014

MEDUSA

Texta sem fylgir sýningunni má finna HÉR

Steingrímur Eyfjörð (f.1954) hefur verið mikilvirkur þátttakandi í myndlistarlífinu um árabil. Hann útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1978 og fór í framhaldsnám við Ateneum í Helsinki. Þaðan hélt Steingrímur í Jan Van Eyck Akademíuna í Hollandi og lauk námi árið 1983.

Steingrímur tók fullan þátt í þeirri kraftmiklu gerjun sem átti sér stað í myndlistinni á Íslandi á áttunda áratugnum og var einn stofnanda Gallerís Suðurgötu 7. Galleríið var vettvangur fyrir ýmiss konar

menningarstarfsemi þar sem mættust listamenn úr ólíkum greinum, það gaf einnig út menningartímaritið Svart á hvítu þar sem Steingrímur var í ritstjórn. Hann var einnig meðal stofnfélaga Nýlistasafnsins og kom að

ritstjórn tímaritsins Tenings. Hann var fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum árið 2007 og hlaut Sjónlistaverðlaunin fyrir þá sýningu ári síðar.

C.G. Jung taldi mannkynið búa yfir hugmyndasögulegum arfi sem næði lengra en sögulegt minni okkar; sammannlegt minni sem væri grafið í dulvitundinni. Eðli tákna er hvorki rökrétt né órökrétt – það byggir bæði á röklegum staðreyndum sem og órökrænum staðreyndum beinnar skynjunar, hvort sem hún er innri eða ytri skynjun. Hér vísar Jung til þess að bein skynjun er eitthvað sem við getum ekki höndlað með orðum, við verðum að vinna úr skynjuninni. Tákn þrungið merkingu er lifandi tákn, það talar bæði til hugsunar og

tilfinninga og verður aðeins til í þróuðum mannsanda. Grunlaus hugur er ekki fær um að skapa tákn, hann lætur duga þau tákn sem fyrir eru.

Á sýningunni MEDUSA sýnir Steingrímur sjö myndpör unnin með blandaðri tækni þar sem hann teflir grímu Medúsu fram sem tákni gegn kerfisbundinni og staðnaðri hugsun, ófrýnilegri ásjónu sem enginn vill mæta.

Í verkum Steingríms verða til snertifletir þess órökræna og rökræna og þættir úr dægurmenningu, þjóðmenningu, pólitík, heimspeki og hversdagsleikanum hríslast um eins og rísóm og tengja list hans saman.

Áhorfandinn verður vitni að ferlinu, skynjun listamannsins, skrásetningu, úrvinnslu og flæði undirmeðvitundarinnar.

Aldís Arnardóttir

 Jung, C.G. Psycologische Typen, 1921. (Hér er stuðst við óútgefna þýðingu Ólafs Gíslasonar , 6).

Sýningin er styrkt af Myndlistarsjóði

Pin It on Pinterest

Share This