Sara Riel

19.12.2013-19.1.2014 Barabarrtré Sara Riel er fædd í Reykjavík 1980, menntuð í Listaháskóla Íslands og Weissensee listaháskólanum í Berlín. Sara á að baki fjölmargar sýningar, hérlendis og erlendis; hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir list sína og þykir einn af áhugaverðustu listamönnum sinnar kynslóðar. Hún hefur fengist við flestöll listform sem hægt er að láta sér detta í hug, auk þess að sinna sýningastjórn. Á sýningunni Barabarrtré vill Sara vekja okkur til umhugsunar um skógrækt á Íslandi og viðhorf til mismunandi trjátegunda. Hvers vegna dásamar fólk lauftré eins og birki og hlyn á sumrin og lítur á þau sem innlendar tegundir, en barrtré njóta eingöngu náðar um jólaleytið; eru annars talin framandi, ágeng tegund? Sé fólk spurt nánar eru svörin oftar fagurfræðilegs eðlis heldur en líf- eða vistfræðilegs. Fólk ber saman gildi óhefts útsýnis annars vegar og uppgræðslu skóga og kosti þeirra hins vegar. Er þetta ekki plönturasismi? Til hvers erum við að rækta fjölbreyttan skóg? Hvers vegna mismunum við trjátegundum í skógrækt, en göngum svo langt í dýrkun barrtrjáa á þessum árstíma að fólk er jafnvel tilbúið til að kaupa eftirmyndir þeirra úr mengandi plasti í stað þess að sækja náttúrulegan efnivið sem hægt er að endurnýta? Um jólin þykja greni og fura eftirsóknarverð og sjálfsagt að flytja inn barrtré ræktuð á stórum ökrum í öðrum löndum. Þau eru altari jólagjafanna í stofum okkar, með ilmi sínum og útliti. Þangað til þau eiga ekki lengur upp á pallborðið og er fleygt út eftir um það bil tvær vikur. Hér er lögð fram tillaga um nýja landgræðsluaðferð og nýjan tilgang fyrir haglabyssur: „Maðurinn minn er skógfræðingur svo ég þekki umræðuna mjög vel, hún er allt í kringum mig… Við höfum verið að kokka upp gróðursetningaraðferð; höfum búið til haglabyssuskot úr fræjum sem við skjótum í jörðina. Skotin eru ljóðræn að einhverju leyti en þetta er tilraun til að sýna fram á að það sé hægt að nota verkfæri sem venjulega er notað til að drepa, til þess að skapa líf. Svo tengist þetta þeirri umræðu að margir líta á grenið sem árás á umhverfið.“ Vefsíða: sarariel.com

Pin It on Pinterest

Share This