Rakel McMahon -RED DIRECTION

Rakel McMahon 2.10- 26.10. 2014

(f. 1983) býr og starfar í Reykjavík, Íslandi. Hún útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2008, diplóma gráðu í hagnýtri jafnréttisfræði við Háskóla Íslands árið 2009 og M.Art.Ed. í listkennslufræðum við Listaháskóla Íslands árið 2014. Hún hefur haldið þrjár einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga og annarra menningarlegra viðburða á Íslandi sem og erlendis m.a. Varsjá, Berlín, Edinborg, Kaupmannahöfn og Helsinki. Jafnframt skipar hún annan helminginn af gjörningar tvíeikinu wunderkind collective sem hún, ásamt skáldinu Begþóru Snæbjörnsdóttur, stofnuðu árið 2011. Rakel hefur komið að stofnun, skipulagningu og rekstri fjölda sýningarverkefna og viðburða á sviði menningar og listar. Þar má nefna fyrrum stjórnarmeðlimur Sequences Listahátíðar og núverandi stjórnarmeðlimur Nýlistasafnsins.

Viðfangsefni og verk Rakelar hverfast oftar en ekki í kringum kyn, kynhlutverk, kynhneigð, staðlímyndir og samfélagslegum valdastrúktúr. Þar sem nálgun hennar og framsetning á verkum sínum einkennist gjarnan af tvíræðni, myndlíkingu, húmor og endurmati á viðteknum samfélagsnormum.

Sýningartexti:

Rakel McMahon hefur verið með þráhyggju gagnvart leiðbeiningum um nokkurt skeið og má meðal annars rekja það til þess hve erfitt hún á sjálf með að fara eftir þeim. Hún hefur einnig velt fyrir sér listgildi leiðbeiningabæklinga sem líklegast fæstir hugsa nokkuð um.

Í sýningu sinni Red Direction hefur hún einangrað ákveðin tákn og brot úr myndum sem finna má í öryggisleiðbeiningum flugvéla. Þegar táknin eru tekin úr samhengi er áhugavert að skoða hvaða merkingu þau hafa og hvernig túlkun á þeim breytist. Flugvélin er til að mynda algengt tákn þar sem hún er sýnd taka sig á loft og lenda, fara upp og niður og aftur upp og niður. Þegar flugvélin er teiknuð ein og sér eða í hópi með öðrum flugvélum tekur hún á sig aðra mynd og verður að áberandi reðurtákni.

Fætur og háhælaðir skór koma oft við sögu en þeir hafa verið einkennandi mótíf í fyrri verkum listakonunnar. Ekki er hægt að sjá líkamann sem skórinn tilheyrir og er því ómögulegt að segja hvort um konu eða karl er að ræða. Ósjálfrátt er þó gert ráð fyrir að fætur í háhæluðum skóm tilheyri konu en karli ef skórnir eru flatbotna.

Líkt og í fyrri verkum Rakelar má finna fyrir undirliggjandi vangaveltum um kynin og þá sérstaklega er varða gildi og viðmið samfélagsins og staðalímyndir. Flugið á sér mjög sterkar staðalímyndir þar sem flugþjónar eru fallegar og veltilhafðar konur og flugmenn eru heillandi karlmenn, hálfgerðar hetjur í stjórnklefa flugvélarinnar sem heitir því skemmtilega nafni “cockpit” á ensku. Þegar velt er fyrir sér samfélagsnormum og svokölluðum hlutverkum kynjanna á ekki að taka neinu sem gefnu heldur þarf að gagnrýna og grandskoða. Rakel gerir það að vissu leyti í þessari sýningu þar sem hún rýnir í leiðbeiningarnar.

Sum verkanna eru kyrralífsmyndir af raftækjum sem slökkt þarf að vera á við flugtak eða á meðan á flugi stendur. En það undravert að sérstaklega þarf að banna fjarstýrða dótabíla og prentara. Í ljósi erótísks undirtóns sýningarinnar skapa mörg raftækjanna sem hún tekur fyrir, svo sem vídeóupptökuvél, myndavél, farsími og fartölva, sterka tengingu við bæði gægjuþörf og sýniþörf.

Sýningin samanstendur af teikningum og hljóðverki sem unnið er í samstarfi við tónlistarmanninn Einar Tönsberg. Teikningarnar bera allar eldrauðan lit en litnum fylgja margar táknrænar tengingar. Rauði liturinn getur meðal annars táknað eitthvað lostafullt og erótískt en einnig getur liturinn verið tákn um hættu eða það sem er bannað og má þar nefna rautt ljós, stopp merki eða hring með rauðu skástriki yfir hlut sem ekki er leyfður. Rauði liturinn og einangruð tákn öryggisleiðbeininganna hafa því margræðar merkingar sem hver getur túlkað á sinn hátt. Hljóðverkið fullkomnar síðan stemmningu sýningarinnar og undirstrikar tvíræðnina í verkunum Red Direction.

Texti: Aldís Snorradóttir

http://www.rakelmcmahon.com/
http://www.wunderkindcollective.com/

Pin It on Pinterest

Share This