Karlotta Blöndal

04.09. – 28.09 2014

Mót / print
– af einum stað á annan

Á sýningunni Mót / Print – af einum stað á annan, sýnir Karlotta Blöndal (f. 1973) verk sem unnin voru úti í náttúrunni fyrr á þessu ári á samsýningunni STAÐIR / PLACES í Tálknafirði á Vestfjörðum. Verkin hafa tekið á sig nýja mynd, gengið í gegnum umbreytingarferli og birtast í nýju samhengi á nýjum stað. Listamaðurinn teflir saman mótum náttúrunnar sem sýningarrýmis og hinum harða strúktúr gallerísins.

Í Tálknafirði helgaði Karlotta sér lítið dalverpi og kom fyrir 13 járnstöngum á víð og dreif um dalinn, efst á þeim voru krókar með pappírsörkum sem fuku til og fundu sér stað í náttúrunni og veðruðust í nokkra daga. Arkirnar mótuðust af náttúruöflunum; drukku í sig rigningarvatn, fengu lit af jarðvegi og grasi og jafnvel ummerki eftir skordýr. Sýningargestum var síðan boðið í „sýningarrýmið” að skoða afraksturinn, – afþrykk náttúrunnar. Verkin endurspegla samvinnu listamanns og náttúru, eru einhverskonar skrásetning og sýnataka sem verður til í bilinu milli náttúru og pappírs. Þau eru unnin út frá fagurfræði náttúrunnar, þar sem Karlotta nálgast viðfangsefnið á afar varfærinn hátt og afhendir náttúrunni auðmjúklega vald listamannsins til þess að myndgera verkin.

Líkt og Robert Smithson gerði í non-site verkum sínum seint á sjöunda áratug síðustu aldar tengir Karlotta saman tvo ólíka póla á sýningunni Mót / Print – af einum stað á annan. Í járnstöngunum má sjá ummerki náttúrunnar og í videóverkinu Rok vísar hún til staðarins (site), þaðan sem efniviðurinn kemur – til verða vensl milli gallerírýmisins sem ekki-staðar (non-site) og staðar. Karlotta knýr fram díalektískt samband milli ósnortinnar náttúrunnar annars vegar og gallerírýmisins hins vegar, þess sem var og þess sem er, hlutar og hugmyndar og þess sem verður til við tilfærsluna frá einum stað á annan.

 Aldís Arnardóttir

 Karlotta útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1997. Hún var við framhaldsnám í Hollandi og Svíþjóð og lauk MFA-námi frá Listaháskólanum í Malmö árið 2002. Hún á að baki fjölmargar einka- og samsýningar hér heima og erlendis, m.a. í Tyrklandi, Kóreu og á Norðurlöndunum.

Nánari upplýsingar um listamanninn eru á: www.this.is/alphabet

Pin It on Pinterest

Share This