Ólöf Helga Helgadóttir

27.3.-13.4.2014

Ólöf Helga útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2005 og Slade School of Fine Art í London árið 2010.  Hún hefur tekið þátt í sýningum hér heima og erlendis. Ólöf býr og starfar í Reykjavík.

Blýanturinn fljúgandi

Til beggja hliða, í augnhæð á miðjum veggjunum vinstra og hægra megin hanga þykk, hringlaga pappírsverk. Þau eru á stærð við matardiska og hanga nákvæmlega hvort á móti öðru – spegla hvort annað – og mynda þannig heild. Hringirnir eru límdir hver ofan á annan. Stærsti hringurinn er innstur og ystur, síðan minnkar þvermálið um 4 mm með hverjum hring sem er límdur ofan á miðju þess sem fyrir er. Í kringum hvern hring er strikað með blýanti og þegar maður horfir á verkin minna blýantshringirnir á spírala. Það eykur þessi áhrif að línan er misþykk og blýantinum er misfast beitt, þannig að hún er líka misdökk. Verkin eru þykkust í miðjunni og þynnast eftir því sem utar dregur.

Á miðjum veggnum á móti, hangir stórt pappírsverk. Þetta var upphaflega risavaxin pappírsskutla. Nema hvað, að Ólöf braut skutluna óvart vitlaust saman og við það urðu til aukahólf innan í henni. Verkið hefur verið sagað í sundur í þrjá jafnlanga hluta sem síðan eru festir saman aftur með bandi. Á pappírinn allan er teiknað þétt mynstur með blýanti. Til að gera mynstrið bjó Ólöf til stensil með útlínuteikningu af vörum sínum. Munnurinn er opinn, en engar tennur sjást. Stærstu brotin í pappírnum eru bólstruð með tróði og svo límt fyrir endana. Öllu er svo haldið saman á nokkrum stöðum niður eftir skúlptúrnum með hvítu, þykku bómullarbandi sem er þrætt í gegnum tilbúin göt og hnýtt saman. Vegna tróðsins og þyngdarinnar er spenna í pappírnum við sum götin og hefur rifnað aðeins út úr þeim uppvið bandið.

Texti: útdráttur úr sjónlýsingu eftir Þórunni Hjartardóttur

 

 

Pin It on Pinterest

Share This