Björk Guðnadóttir -ERTU VISS

Björk Guðnadóttir 30.10. – 22.11 2014

“Líðandin er óslitin framrás fortíðarinnar sem fellur í framtíðina með sívaxandi þunga. Fortíðin er alltaf með okkur. Hver tilfinning og hver hugsun er fortíð sem knýr á dyr vitundarinnar.“ –

Henri Bergson – “Introduction á la métaphysiqe”, 1903.

Eitt af leiðarstefunum í verkum og innsetningum Bjarkar Guðnadóttur (f.1969) allt frá því hún hóf myndlistarferil sinn, seint á tíunda áratug síðustu aldar, er formræn mótun úr efnivið eins og plasti, lérefti, ullargarni, gifsi og vaxi, þar sem áferð, hreyfing og efniskennd er ríkjandi þáttur.

Á sýningunni Ertu viss gefur að líta þrjú ljósmyndaverk og myndbandsverk sem voru gerð á undanförnum tveimur árum og sýnd í sýningarrými Liget Galéria í Búdapest síðastliðið sumar. Björk veltir upp hinum eilífu spurningum um snertifleti tilvistar mannsins, hið drífandi afl sem býr í minni hvers einstaklings og vekur upp ólíkar kenndir.

Ljósmyndirnar voru teknar á Lubitel LOMO 166b myndavél, sem skilar grófri áferð og flöktandi fókus. Björk opnar linsuna tvisvar og myndar efni sem hún hreyfir á milli taka. Listamaðurinn myndar ákveðið tímaskeið á milli þess sem opnað er fyrir linsuna og fangar þannig bæði hreyfingu efnis og óskilgreinds tíma, – það sem franski heimspekingurinn Henri Bergson kallaði líðandi eða la durée. Útkoman er abstrakt form sem vekur upp óræðar sammannlegar kenndir – jafnvel yfirbragð munúðar. Í myndbandsverkinu er hægur stígandi, efni bylgjast með líkamlegum takti. Eftirvænting áhorfandans er smám saman byggð upp, berskjölduð manneskja birtist síðan undir hvítu lakinu og setningabrot með staðhæfingum birtast. Í verkinu endurspeglast rannsókn listamannsins á ólíkum hliðum mannlegrar tilvistar og áhorfandinn verður vitni að óþægilegri kennd eða jafnvel ógn þar sem varnarleysi manneskjunnar er undirliggjandi.

Aldís Arnardóttir

Björk stundaði framhaldsnám í myndlist við Oslo Academy of Fine Arts og útskrifaðist með MFA gráðu í myndlist frá Umeå Akademy of Fine Arts í Svíþjóð árið 1999. Hún nam klæðskurð við École Superieure de la Mode og Ateleier Hourdé í París á árunum 1991–1994.

Nánari upplýsingar um listamanninn eru á www.this.is/bjork

Pin It on Pinterest

Share This