Bjarni Þórarinnsson

15.5-8.6.2014 Þróunarvíðrófið Bjarni H. Þórarinsson útskrifaðist frá Nýlistadeild Myndlista- og handíðaskólans árið 1977 og hefur verið virkur þátttakandi í myndlistarlífinu æ síðan. Hann var einn af stofnendum Gallerís Suðurgötu 7 sem var mikilvæg miðstöð í þróun framlínumyndlistar á Íslandi og einn af stofnfélögum Nýlistasafnsins 1978. Fyrstu árin vann Bjarni í anda nýlistarinnar og Fluxus, og samdi og flutti meðal annars ýmiss konar gjörninga og performansa. Þekkt er til að mynda þegar gróf sig upp að hálsi í Klambratún svo aðeins höfuðið stóð upp úr sverðinum og spjallaði þannig við vegfarendur. Veturinn 1987-88 tók listsköpun Bjarna nýja stefnu því þá hóf hann rannsókn sem átti eftir að endast honum meira en tvo áratugi – og er enn ekki lokið. Upphaflega var ætlun hans að glöggva sig betur á eðli forma og myndflata. Fyrstu verkin í þessari nýju rannsókn voru abstrakt samsetningar þar sem litir og form raðast saman eftir myndrænni reglu og niðurstaðan er eins konar tilraun um sjónræna bragarhætti. Eins og oft gerist þegar við leitumst við að einfalda hugsun okkar – að finna einföldustu og grundvallarlegustu regluna sem við getum byggt skilning okkar á – opnuðust Bjarna þarna óþrjótandi nýir möguleikar og hann skilgreindi rannsókn sína sem nýja fræðigrein: Sjónháttafræði. Bjarni fór fljótlega að útfæra hugmyndir sínar með aðstoð texta. Í tungumálinu og hinum ritaða texta gat Bjarni þróað formkerfi sín og dregið fram skyldleika og líkindi orða og jafnvel hugtaka á skýran og stundum tæmandi hátt. Hráefni rannsóknarinnar eru listar þar sem Bjarni teiknar orð upp í kerfi sem gera honum kleift að búa til eins konar beygingarlykla sem hann nýtir síðan í nýja texta sem oft má einna helst líkja við hljóðaljóð. Þær afurðir þessa starfs sem flestir kannast við eru Vísirósirnar, undurfagrar samhverfar teikningar þar sem orða- og hugtakakerfi þessara vísinda eru felld í myndrænt form. Þær eru undurfallegar og draga mann að sér – maður getur bókstaflega týnt sér í þeim. Bjarni hefur á síðustu árum teygt rannsóknir sínar í ýmsar áttir en með þessari sýningu snýr hann sér aftur að Vísirósunum.

Pin It on Pinterest

Share This